Starfsemin

Að mörgu er að huga í kjölfar andláts ástvinar. Vefsíða þessi veitir upplýsingar um helstu atriði varðandi undirbúning og framkvæmd.

Hjá Útfararstofu Svafars og Hermanns er veitt heildræn þjónusta í öllu er lýtur að útförum.

Til staðar er yfir tuttugu ára reynsla og þekking á öllu því sem tengist ferlinu frá andláti að hinstu kveðjustund.

Útfarastjórar Svafar Magnússon
Svafar Magnússon

Svafar er fæddur 1963, uppalinn í Reykjavík og á Seltjarnarnesi. Foreldrar hans eru Magnús Jónsson óperusöngvari (látinn) og Guðrún Svafarsdóttir, fyrrverandi útibústjóri Útvegsbanka og síðar Íslandsbanka. Svafar á eina systur, Sigrúnu Vilborgu.

Svafar starfaði hjá Lögreglunni í Reykjavík, hjá Atlanta flugfélaginu og síðast í 17 ár hjá Útfararstofu Kirkjugarðanna sem útfararstjóri og verkstjóri. Eiginkona Svafars er Ásta Friðrika Björnsdóttir og eiga þau þrjú börn, Vigni Arnar, f. 1985, Unni Grétu, f. 1987, og Ylfu Guðrúnu, f. 2000. Svafar hefur alla tíð haft mikinn áhuga á íþróttum og spilaði lengi handbolta með meistaraflokkum Gróttu, Víkings, Breiðabliks og FH auk þess sem hann hefur þjálfað yngri flokka. Frístundunum ver hann í stangveiði jafnt sem skotveiði og svo sameinast fjölskyldan öll í hestamennskunni og jafnvel ræktun þótt í smáum stíl sé.

Hermann Jónasson
Hermann Jónasson

Hermann Jónasson er borinn og barnfæddur Siglfirðingur og bjó á Siglufirði til ársins 2006. Hann er fæddur árið 1957 og er sonur Jónasar Björnssonar, skattendurskoðanda og vigtarmanns, og Hrefnu Hermannsdóttur frá Ysta Mói, Fljótum. Hermann nam við Póstskóla Íslands og starfaði um nokkurra ára skeið hjá Pósti og síma. Síðar hjá Útvegsbanka Íslands og bæjarfógetanum á Siglufirði sem aðalbókari. Hann keypti seinna umboðsskrifstofuna Þormóð Eyjólfsson ehf. og rak hana um árabil. Hermann var þá meðal annars umboðsmaður Eimskipafélagsins og Sjóvá trygginga á Siglufirði. Samhliða öðrum störfum var hann um margra ára skeið meðhjálpari og kirkjuvörður við Siglufjarðarkirkju og sá þar meðal annars um útfarir.

Árið 2006 flutti Hermann til Reykjavíkur og starfaði við útfararþjónustu þar til hann stofnaði eigin útfararstofu í september 2012. Hann hefur tekið mikinn þátt í félagsstörfum í gegnum tíðina og verið virkur í starfi kirkjunnar. Hermann hefur sótt endurmenntun í Endurmenntun Háskóla Íslands, tekið meðal annars námskeiðin Viðbrögð stjórnenda og samfylgd í kjölfar áfalla í starfsmannahóp og Sálgæsla og áfallahjálp, einnig námskeið í Kóraninum.

Útförin

Allir eiga rétt á legstað í kirkjugarði, óháð trúfélagi. Útfararstofa Svafars og Hermanns annast útfarir óháð trúfélagi og einnig þeirra sem eru utan trúfélaga.

Jarðarfarir og bálfarir eru kveðjuathöfn samfélagsins og tækifæri vina og ættingja að votta hinum látna virðingu sína. Íslendingar hafa lagt mikla rækt við virðuleika í útförum.

Að lokinni kistulagningu er val um hefðbundna jarðarför eða bálför, sé bálför valin fer kistan eftir athöfn í bálstofuna í Fossvogi. Að bálför lokinni er kerið jarðsett eða öskunni dreift. Að öðru leyti er umgjörð öll með sama hætti.

Kistur, ker & fleira

Við höfum uppá að bjóða úrval af kistum og duftkerjum og veitum aðstoð við val, þar að auki erum við með allt sem tengist, ljósker, kerti, krossa, legsteina og fleira.

Við erum við símann ef það eru einhverjar spurningar og svo má alltaf senda okkur póst héðan af síðunni.

Önnur þjónusta

Útfararstofa Svafars og Hermanns er innanhandar frá fyrstu stundu, að nóttu sem degi í síma 571 8222. Við aðstoðum við val á kistu, frágang skjala, svo sem dánarvottorðs o.fl., blómaskreytingar, efnisval, uppsetningu og prentun sálmaskrár, ráðningu hljóðfæraleikara og söngfólks, útvegum kross á leiði og önnumst uppsetningu, ásamt öllu sem upp kann að koma.

Svafar og Hermann búa að yfir tveggja áratuga reynslu af þjónustu við aðstandendur og sinna skyldum sínum af natni, hlýju og af þeim trúnaði og virðingu sem fráfall ástvinar verðskuldar.

Útfararstofa Svafars og Hermanns er með skrifstofu að Síðumúla 28, 108 Reykjavík. Þangað geta aðstandendur komið og rætt við okkur í næði.

Líkbílar
Gátlisti við undirbúning útfarar
 • Hafa samband við útfararstofu og gefa þar upp fullt nafn og kennitölu hins látna.
 • Tilkynna andlát til sýslumanns með afhendingu dánarvottorðs.
 • Val á kistu og fatnaði, líkklæði eða eigin föt.
 • Skreyting kistu, fáni/blóm.
 • Val á legstað.
 • Sálmaskrá til afhendingar við athöfn, sé þess óskað.
 • Aðstandendur, eða útfararstofa fyrir þeirra hönd hefur samband við þann sem valinn er til að framkvæma athöfnina, hvort sem það er prestur eða annar sá er til þess er bær.
 • Ákveða hvernig auglýsa skal andlát eða/og útför.
 • Tónlistarflutningur í útför. Val á organista, kór, einsöngvara eða einleikara, eftir því sem við á.
 • Tónlist við kistulagningu, ef óskað er.
 • Kanna hvort hinn látni hafi ákveðið bálför.
 • Velja staðsetningu og tíma kistulagningarbænar sé hennar óskað.
 • Val kistubera og fjölda, 6 eða 8.
 • Merking leiðis, kross eða púlt.
Smelltu hér til að ná í prentanlegan gátlista
Kostnaður

Kostnaður við útför getur verið mjög misjafn og ógerningur að setja upp nokkurskonar verðskrá hér á vefsíðu okkar.

Verðið eftir hversu umfangsmikil útförin er, það er hvort eigi að hafa kór, einleikara, einsöngvara, organista, blóm og fleira. Einnig er mikill munur á verði milli allra þessara liða og annarra.

Við leggjum áherslu á að finna útför við ykkar hæfi og getum séð um alla liði sem snúa að henni.

Til þess að geta boðið þér það sem við teljum henta viljum við gjarnan fá að hitta þig og sýna þér hvað er í boði.

Hafðu samband við okkur og við finnum hentugan tíma fyrir þig. Við getum bæði boðið þér að koma á skrifstofu okkar eða hitt þig hvar sem þér finnst þægilegast.